Posted on Færðu inn athugasemd

Fuglasöngur

Frú Jóra hlustar á fuglana….

Hafið þið tekið eftir fuglasöngnum núna? Þessum yndislega vorboða. Ef vera skyldi að þið hefðuð ekki gert það, hvetur frú Jóra ykkur til að leggja við hlustir snemma á morgnanna. Dásamlegir tónleikar, alveg ókeypis.
Frú Jóra hlustar gjarnan á hlaðvarpið (podcast) Gardening with the RHS. Þar hefur nokkuð verið rætt um óvænt áhrif krórónuveirufaraldursins tengt garðrækt í Bretlandi. Síðasta vor þegar útgöngubann var í gildi í Bretlandi minnkaði umferðarniður og önnur umhverfishljóð það mikið að fólk tók miklu meira eftir fuglasöngnum. Mörgum fannst reyndar vera ótrúleg læti í fuglunum þetta vorið. Raunin er hinsvegar sú að svona var þetta öll vor. Söngvarnir bara drukknuðu í öllum hinum látunum.

Hjá okkur þarf, sem betur fer, á mörgum stöðum ekki að leggja vandlega við hlustir til að ná að greina fuglasönginn. Það er kannski helst rokið sem truflar hann stundum. En það er vel þess virði að muna eftir því að leggja við hlustir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Vordraumar

Frú Jóra lætur sig dreyma um vorið….

Garðurinn er freðinn en Frú Jóra horfir stundum löngunaraugum út í freðinn garðinn. Um daginn tók hún sig til í frosti en annars fallegu veðri og grisjaði nokkrar stærri greinar úr rifsberjarunnunum sem hún hefur verið að grisja síðustu 4 árin (þeirri vegferð verður nánar lýst hér við tækifæri). Verkfærið var einföld greinasög (Frú Jóra hefur ekki lagt í öflug vélknúin verkfæri sem gætu valdið likamstjóni) og endaði með teygjubindi um handlegginn til að lina strengina. Það var samt alveg þess virði að gera eitthvað smá.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hóllráð Frú Jóru: „Kaffi fyrir plönturnar“

Kaffikorgur sem fellur til á flestum heimilum getur nýst vel í garðinum. Áður en korgurinn er settur í garðinn þarf hann að kólna og þorna. Blautur kaffikorgur myglar fljótt. Best er að dreifa úr korginum t.d. á bökunarplötu til að láta hann þorna. Kaffikorgur inniheldur ýmis næringaefni og hentar vel sem áburður fyrir blóm eða í grænmetisbeðið. Hann hentar sérstaklega fyrir plöntur sem þurfa súran jarðveg. Agúrkum, tómötum og kúrbít finnst líka gott að fá vægan koffínskammt. Ungviði eins og græðlingar þolir illa kaffidrykkjuna.

Óboðnir gestir eins og sumar tegundir snigla virðast ekki vera hrifnir af kaffi. Það skaðar því ekki að strá kaffikorg í kringum salatbeðið og sjá hvort skaðvaldurinn hypjar sig ekki. Það sama gildir um ketti.

Kaffikorgur er tilvalinn í moltugerð því kaffið flýtir fyrir niðurbroti í safnkassanum. Maðkar fá kikk úr kaffikorg  og verða önnum kafnir við að bæta moldina. Ein til tvær skeiðar af kaffikorg í vökvunarvatnið er sömuleiðis góð leið til að leyfa plöntunum að fá sér smá koffín.

Posted on Færðu inn athugasemd

Grænkál – uppáhalds vetrargrænmeti Frú Jóru

DSC_1231Grænkál er auðvelt að rækta. Uppskerutími þess er á haustin. Kálið er hægt að nota í marga gómsæta réttir. Í Norður-Þýskalandi er sérstök hefð fyrir því að borða grænkálsrétti eftir fyrsta næturfrost haustsins. Sagt er að frostið auki sykurmagnið í kálinu og geri það þar með bragðbetra. Þjóðverjar sjóða grænkálið og borða það með reyktri svínapylsu (Kohlwurst), reyktu svínakjöti (Kassler) og fleski (Speck). Soðnar eða steiktar kartöflur (Bratkartoffeln) eru gjarnan hafðar með. Stórt bjórglas er ómissandi með þessum saltaða sveitarétti.

Grunkohl

Hrátt grænkál inniheldur mikið magn c-vítamíns og er meinhollt. Það er upplagt að nota grænkál í þeytinga (smoothies) en líka í allskonar heita rétti. Það eru óteljandi möguleikar til að nýta sér þessa hollustufæðu, t. d. í grænkálssnakk, grænkálspestó, í salat, sem jafning og í allskonar rétti.

Hér fylgir uppskrift að grænkáls-rísottói:

250 g grænkál, 300 g gulrætur, 1 laukur, 1 lítri grænmetissoð, 6 msk ólía, 300 g rísottóhrísgrjón, salt, pipar, u.þ.b. 50 g hakkaðar valhnetur, 1 hvítlauksrif, 200 g kirsjuberjatómatar, 20 g smjör, 60 g rifinn parmesanostur

Skerið grænkálið og gulrætur niður. Skerið laukinn smátt. Steikið gulræturnar í 2 matskeiðum af olíu. Það sama er gert með laukinn. Bætið kálinu við og steikið allt saman í smá stund. Bætið hrísgrjóninunum við, kryddið með salti og pipar.

Hellið u.þ.b. 200 ml heitu grænmetissoði yfir allt. Bætið reglulega soði við þegar hrísgrjónin eru búin að draga vökvann í sig. Tekur u.þ.b. 30 – 35 mínútur að klára allt soðið og þá ættu hrísgrjónin að vera orðin mjúk. Steikið saxaðan hvítlauk og tómata í 2 matskeiðum af olíu, bætið smjöri við og kryddið.

Hökkuðu hnetunum og rifna parmesanostinum er blandað saman við hrísgrjónin. Borið fram með hvítlaukstómötunum.