Posted on Færðu inn athugasemd

Sjálfbærni í garðinum

Frú Jóra íhugar tískuorð í garðyrkju…

Sjálfbærni er tískuorðið í garðyrkjuumræðu í heiminum í dag. Fólki er tíðrætt um sjálfbærni á mörgum sviðum og ekki að ástæðulausu. Frú Jóra hefur ekki kynnt sér þessa umræðu ítarlega en meðal annars er rætt um að nota minna af plasti, tilbúnum áburði, skordýraeitri og passa upp á að ofnota ekki auðlindir á borð við vatn.

Frú Jóra hefur þó í sínum eigin garði þurft að vera mjög sjálfbær á ákveðnu sviði. Frú Jóra á nefnilega ekki kerru aftan í bíl. Né bíl með krók til að draga kerru. En hún á stóran garð sem búinn var að vera í órækt í nokkur ár áður en hún tók við honum fyrir fjórum árum síðan.

Í stórum garði fellur ýmislegt til. Slægjan eftir garðsláttinn, búið er að klippa heil ósköp af runnum og ýmislegt gert. Mjög fáar ferðir hafa þó verið farnar á ruslahauga með garðúrgang. Einstaka sinnum með illgresi og verður að játast að nokkrum sinnum hefur pokum af því verið laumað í almennt sorp. Þetta þykir Frú Jóru nokkuð góður árangur.

Slægjan hefur talsvert farið í moltutunnua (stöku sinnum í kálfa og hross úti í sveit) eða verið dreift um garðinn til að byggja upp land eða reyna að kæfa illgresi. Tveir gróðurkassar ca. 2×1 m hvor sem smíðaðir voru síðasta vor tóku við ótrúlegu magni af stórum greinum og ýmsu garðrusli áður en sett var kurl og mold yfir. Það sem hefur þó haft úrslitaáhrif um að ná fram þessari sjálfbærni er að Frú Jóra fjárfesti fyrir tveimur árum í kurlara. Hann tekur allt að 4 cm greinar þannig að þær stærstu þarf að finna upp á annarri lausn fyrir. En þvílíkt magn af greinum sem hann er búinn að rífa niður. Hann hefur aukið sjálfbærni umtalsvert.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fuglasöngur

Frú Jóra hlustar á fuglana….

Hafið þið tekið eftir fuglasöngnum núna? Þessum yndislega vorboða. Ef vera skyldi að þið hefðuð ekki gert það, hvetur frú Jóra ykkur til að leggja við hlustir snemma á morgnanna. Dásamlegir tónleikar, alveg ókeypis.
Frú Jóra hlustar gjarnan á hlaðvarpið (podcast) Gardening with the RHS. Þar hefur nokkuð verið rætt um óvænt áhrif krórónuveirufaraldursins tengt garðrækt í Bretlandi. Síðasta vor þegar útgöngubann var í gildi í Bretlandi minnkaði umferðarniður og önnur umhverfishljóð það mikið að fólk tók miklu meira eftir fuglasöngnum. Mörgum fannst reyndar vera ótrúleg læti í fuglunum þetta vorið. Raunin er hinsvegar sú að svona var þetta öll vor. Söngvarnir bara drukknuðu í öllum hinum látunum.

Hjá okkur þarf, sem betur fer, á mörgum stöðum ekki að leggja vandlega við hlustir til að ná að greina fuglasönginn. Það er kannski helst rokið sem truflar hann stundum. En það er vel þess virði að muna eftir því að leggja við hlustir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Vordraumar

Frú Jóra lætur sig dreyma um vorið….

Garðurinn er freðinn en Frú Jóra horfir stundum löngunaraugum út í freðinn garðinn. Um daginn tók hún sig til í frosti en annars fallegu veðri og grisjaði nokkrar stærri greinar úr rifsberjarunnunum sem hún hefur verið að grisja síðustu 4 árin (þeirri vegferð verður nánar lýst hér við tækifæri). Verkfærið var einföld greinasög (Frú Jóra hefur ekki lagt í öflug vélknúin verkfæri sem gætu valdið likamstjóni) og endaði með teygjubindi um handlegginn til að lina strengina. Það var samt alveg þess virði að gera eitthvað smá.