Posted on Færðu inn athugasemd

Sjálfbærni í garðinum

Frú Jóra íhugar tískuorð í garðyrkju…

Sjálfbærni er tískuorðið í garðyrkjuumræðu í heiminum í dag. Fólki er tíðrætt um sjálfbærni á mörgum sviðum og ekki að ástæðulausu. Frú Jóra hefur ekki kynnt sér þessa umræðu ítarlega en meðal annars er rætt um að nota minna af plasti, tilbúnum áburði, skordýraeitri og passa upp á að ofnota ekki auðlindir á borð við vatn.

Frú Jóra hefur þó í sínum eigin garði þurft að vera mjög sjálfbær á ákveðnu sviði. Frú Jóra á nefnilega ekki kerru aftan í bíl. Né bíl með krók til að draga kerru. En hún á stóran garð sem búinn var að vera í órækt í nokkur ár áður en hún tók við honum fyrir fjórum árum síðan.

Í stórum garði fellur ýmislegt til. Slægjan eftir garðsláttinn, búið er að klippa heil ósköp af runnum og ýmislegt gert. Mjög fáar ferðir hafa þó verið farnar á ruslahauga með garðúrgang. Einstaka sinnum með illgresi og verður að játast að nokkrum sinnum hefur pokum af því verið laumað í almennt sorp. Þetta þykir Frú Jóru nokkuð góður árangur.

Slægjan hefur talsvert farið í moltutunnua (stöku sinnum í kálfa og hross úti í sveit) eða verið dreift um garðinn til að byggja upp land eða reyna að kæfa illgresi. Tveir gróðurkassar ca. 2×1 m hvor sem smíðaðir voru síðasta vor tóku við ótrúlegu magni af stórum greinum og ýmsu garðrusli áður en sett var kurl og mold yfir. Það sem hefur þó haft úrslitaáhrif um að ná fram þessari sjálfbærni er að Frú Jóra fjárfesti fyrir tveimur árum í kurlara. Hann tekur allt að 4 cm greinar þannig að þær stærstu þarf að finna upp á annarri lausn fyrir. En þvílíkt magn af greinum sem hann er búinn að rífa niður. Hann hefur aukið sjálfbærni umtalsvert.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.